Samstarf

Dorado hefur undanfarið unnið að því að búa til eitt stærsta markaðstorg fyrir gistingu sem til er á Íslandi. Í umboði á þriðja tugar stéttarfélaga mun Dorado sjá um að selja félagsmönnum þeirra, sem telja vel yfir 100 þúsund vinnandi einstaklinga, ferðaávísanir. Ávísanirnar, sem í flestum tilfellum eru niðurgreiddar af stéttarfélögunum, gilda á íslenskum hótelum og gistiheimilum.

Dorado hefur þegar samið við nokkrar hótelkeðjur og gistiheimili um allt land en leitar nú að fleiri samstarfsaðilum. Í skiptum fyrir beinan aðgang að stórum hluta vinnandi fólks á Íslandi, án þess að þurfa að auglýsa, er sú krafa gerð að gististaðirnir bjóði þessum hópi sín allra bestu kjör. Jafnframt er skilyrði að ferðaávísunin gildi með öllum öðrum tilboðum.

Ferðaávísun leysir af gistimiða

Fram að þessu hefur félagsmönnum stéttarfélaga staðið til boða að kaupa gistimiða sem eru gefnir út af hótelum og gistiheimilum og eru eyrnamerktir þeim. Miðarnir hafa venjulega verið verðlagðir með margra mánaða fyrirvara og eru bundnir við tiltekinn gististað. Sá sem miðann hefur keypt hefur ekki getað breytt áætlunum sínum nema með mikilli fyrirhöfn.

Öll umsýsla þessara miða hefur verið þung í vöfum, bæði fyrir stéttarfélögin og hótelin. Uppgjör hefur verið tímafrekt enda þarf að gefa út fjölmarga reikninga. Allnokkuð hefur auk þess borið á óánægju meðal kaupenda miðanna þegar betri tilboð bjóðast.

Rafræn lausn og sveigjanleiki

Ferðaávísunin er rafræn en hana kaupa félagsmennirnir á orlofsvef síns stéttarfélags. Félagsmaðurinn kaupir ávísun í ákveðinni upphæð sem er skilgreind af hverju félagi fyrir sig. Ávísunina notar félagsmaðurinn svo til að greiða fyrir þjónustu á hóteli.

 Ef handhafi ferðaávísunar vill breyta ferðaáformum sínum, eða ef hótelið er fullbókað þá nótt sem hann hyggst gista, getur hann fyrirhafnarlaust notað ávísunina hjá öðrum samstarfsaðilum. Ef hann vill stærra herbergi eða kaupa aukna þjónustu þegar á hólminn er komið, greiðir hann mismuninn. Að sama skapi getur sú staða komið upp að hann fullnýti ekki ávísunina sem hann keypti, ef hann rekst á hagstæðara tilboð.

Félagsmenn hafa val um fleiri en eitt hótel og geta nýtt ávísunina með öðrum sértilboðum sem frá hótelunum berast. Þegar niðurgreiðsla stéttarfélaganna til félaga sinna leggst við bestu kjör sem hótelin geta boðið, leiðir það til einstakra afsláttarkjara fyrir þennan stóra hóp fólks.

Félagsmenn munu geta skoðað heimasíðu með þeim tilboðum sem hótel og gistiheimili gera þeim hverju sinni. Hvert hótel getur haft margar vörur á boðstólnum; allt frá stakri nótt upp í fleiri nætur með máltíðum eða annarri þjónustu. Dorado gerir þá kröfu til samstarfsaðila að betri tilboð fyrir sömu vöru sé ekki að finna annars staðar.

Einn reikningur fyrir öll félögin

Með því að efna til samstarfs við Dorado og þennan stóra hóp stéttarfélaga þurfa hótelin ekki lengur að leggja vinnu í að semja við hvert og eitt þeirra og gefa út prentaða gistimiða. Dorado mun semja við seljendur fyrir hönd allra samstarfsfélaga, til að einfalda utanumhald og uppgjör. Aðeins er þörf á að gefa út einn reikning fyrir tiltekið tímabil, fyrir alla þá upphæð sem greidd hefur verið hótelinu með ferðaávísun. Dorado annast greiðslu þeirra og sér um öll samskipti við stéttarfélögin en þau sjá sjálf, á sínum vettvangi, um að kynna það sem í boði er fyrir félagsmönnum sínum.

Helstu kostir:

  • Beint aðgengi söluaðila að meira en 100 þúsund félagsmönnum (og fjölskyldum þeirra) á vinnumarkaði.
  • Enginn auglýsinga eða markaðskostnaður fyrir söluaðila.
  • Hvert stéttarfélag vekur athygli á tilboðunum á sínum vefsíðum og samfélagsmiðlum.
  • Stéttarfélögin niðurgreiða í flestum tilvikum gistinguna, sem gerir tilboðið enn betra í augum félagsmannsins. Það er til þess fallið að auka söluna.
  • Auðvelt að setja saman og birta ýmis pakkatilboð; þar sem saman fer gisting og þjónusta.
  • Engin skuldbinding um frátekin herbergi en ávísunina getur félagsmaðurinn notað hjá hvaða söluaðila sem er, að undangenginni bókun.
  • Aðeins þarf að semja við einn aðila; Dorado.
  • Ómæld vinna við gerð reikninga sparast, þar sem aðeins þarf að rukka einn aðila um alla upphæðina.

2015 © Dorado ehf. Allur réttur áskilinn.